Bandaríski grínistinn Bill Burr er mörgum kunnugur en hann hefur meðal annars komið nokkrum sinnum í heimsókn til Íslands til að halda uppistandssýningar.

Bill hefur verið uppistandari frá ungum aldri en það gæti komið sumum á óvart að hann er líka hlaðvarpsstjórnandi, rithöfundur og leikari sem hefur komið fram í nokkrum vinsælum þáttum og bíómyndum undanfarin ár.

Hann lék aðalhlutverk í myndinni The King of Staten Island sem kom út árið 2020 og hefur einnig tekið að sér hlutverk í sjónvarpsþáttunum Breaking Bad og Mandalorian.

Nýjasta kvikmynd grínistans heitir Old Dads og kom hún út á dögunum á streymisveitunni Netflix. Þar fer Bill með hlutverk Jack Kelly, miðaldra karlmanns sem varð faðir aðeins of seint í lífinu. Hann átti sitt fyrsta barn 46 ára með konu sinni, sem leikin er af Katie Aselton.

Jack er hins vegar ekki eini „gamaldags“ pabbinn í myndinni en þeir Bokeem Woodbine og Bobby Cannavale fara einnig með svipuð hlutverk í myndinni.

Á einum tímapunkti missir Jack þolinmæðina við leikskólastjóra sonar síns, sem leikin er af Rachael Harris og lýsir skólanum sem „samfélagi“, og þarf þá að leita sáttar bæði með henni og umhverfi sínu sem er hlaðið réttlætisriddurum og þátttökuverðlaunum.

Jack er til að mynda sagt af einum pabba að „huga að forréttindum sínum“, en sá pabbi komst nýlega að því í gegnum DNA-prófið 23andMe að hann væri 3% ættaður frá Sri Lanka og lítur nú á sig sem litaðan einstakling.