Ítarlega umfjöllun um Laufeyju Lín Jónsdóttur, sem er í dag sá íslenski tónlistarmaður með flestar mánaðarlegar hlustanir á tónlistarveitunni Spotify, er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Á framhaldsskólaaldri sótti Laufey bæði sellónám og djasssöngnám við Menntaskólann í tónlist (MÍT). Í rytmíska söngnáminu var hún undir handleiðslu Guðlaugar Drafnar Ólafsdóttur söngkonu um um það bil tveggja ára skeið. Guðlaug, sem er sjálf menntuð á sviði djasstónlistar, segir að það hafi ekki leynt sér að Laufey ætti framtíðina fyrir sér í tónlist.

„Þetta voru bara tónleikar í hverri viku, að fá að hlusta á hana. Það var frábært að hafa Laufeyju í tímum,“ segir Guðlaug. Hún segir að Íslendingurinn í sér hafi ekki hugsað það svo langt að Laufey gæti náð jafn ótrúlegum árangri og hún hefur þegar gert.

„En hún hefur ávallt haft alla burði í að ná langt. Tónlistin er henni bara þannig í blóð borin að maður hugsaði aldrei neitt annað en að hún yrði tónlistarkona, hvort sem hún yrði þetta risanafn eða „venjuleg“ tónlistarkona. Maður bjóst hins vegar alltaf við því að hún myndi fljótlega ná langt,“ segir Guðlaug og bætir við að hún efist um að sá dagur hafi liðið sem Laufey hafi ekki verið að spila á hljóðfæri, syngja eða semja lög. „Færnin sem hún býr yfir kemur ekkert á einni nóttu.“

„Hún hefur ávallt haft alla burði í að ná langt,“ segir Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir um Laufeyju.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðlaug segir Laufeyju hafa mikla næmni fyrir allri tónmyndun og smáatriðum hvað það varðar. Laufey sé með það sem kallast fullkomið tóneyra. Þá búi Laufey yfir yfirgripsmikilli þekkingu á tónlist sem sennilega megi rekja til annars vegar klassísku tónlistarinnar og djassins sem hún hlustaði á frá unga aldri og hins vegar allra hljóðfæranna sem hún spilar á. Guðlaug segir Laufeyju því hafa mörg tromp á hendi.

„Mér finnst líka svo frábært að hvort sem hún er í viðtölum, á sviðinu eða annars staðar, þá sér maður alltaf sömu stelpuna og var í söngtímunum – glöð, jákvæð og elskaði allt einhvern veginn. Það er ekkert yfirborðskennt við hana.“

Boðberi djasstónlistar og öflug „business-kona“

Á sínum yngri árum sótti Laufey einnig tíma hjá Kristjönu Stefánsdóttur, einni fremstu djasssöngkonu landsins. Spurð hvort hún hafi átt von á að Laufey myndi ná jafnlangt í tónlistarheiminum og raun ber vitni, segir Kristjana að hæfileikar hennar hafi í það minnsta ekki leynt sér.

„Laufey var kornung þegar hún mætti í tíma hjá mér. Ég vissi um leið og hún opnaði munninn að hún væri frábær tónlistarkona. Hún er með fádæma raddfegurð – hún var strax með svona óvanalega dökkan „smokey“ djasslit á röddinni á þessum unga aldri. Ég gerði mér fullkomlega grein fyrir að Laufey ætti eftir að fara langt en þetta er eitthvað sem ég held að engan hafi órað fyrir,“ segir Kristjana og bætir við að enginn annar íslenskur djasstónlistarmaður hafi flogið jafn hátt.

„Ég vissi um leið og hún opnaði munninn að hún væri frábær tónlistarkona,“ segir Kristjana Stefánsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kristjana segir Laufeyju vera vandaða tónlistarkonu með algjörlega sinn eigin stíl. Hún dansi á fallegri brú klassískrar tónlistar, djass og popps með smá söngleikjalínu og lágstemmdum „acoustic“ blæ. Gaman sé að fylgjast með umræðum um hvort flokka megi Laufeyju sem djasstónlistarkonu þar sem hún fylgi sínum eigin leiðum.

Það fari þó ekki á milli mála að Laufey sé boðberi djasstónlistar og er að mati Kristjönu búin að koma djasstónlistinni aftur á kortið. Að fylgjast með þúsundum unglinga á tónleikum Laufeyjar tryllast yfir gömlum djassballöðum er mögnuð upplifun að sögn Kristjönu.

Ítarleg umfjöllun um Laufeyju birtist í Áramótum, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.