Qatar Sports Investments (QSI), eigandi franska knattspyrnufélagsins Paris Saint-Germain, verðmetur félagið á fjóra milljarða evra. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times. QSI er félag stofnað af katarska ríkinu til að fjárfesta í íþróttum og er fjármagnað af þjóðarsjóði Katar.

Til samanburðar verðmat Forbes PSG á 3,2 milljarða evra fyrr á þessu ári. Áætlað er að tekjur PSG á yfirstandandi tímabili verði um 700 milljónir evra, eða um hundrað milljarðar króna. Tekjur frönsku meistaranna er nú sambærilegar tekjum annarra stórliða í Evrópu.

PSG hefur verið í viðræðum við fjölmarga fjárfesta síðan í sumar um sölu á allt að 15% hlut í félaginu. Nasser Al-Khelaifi, stjórnarformaður QSI og forseti PSG, sagði í samtali við FT að áframhaldandi viðræður myndu byggja á verðmati QSI.

Til samanburðar var enska knattspyrnufélagið Chelsea selt á 2,5 milljarða punda eða 2,9 milljarða evra fyrr á árinu. Það má segja að sú sala hafi komið snjóboltanum af stað, en auk PSG hafa eigendur tveggja stærstu félaga Englands, Liverpool FC og Manchester United, gefið það út að félögin séu til sölu.

Níföld ávöxtun á 11 árum

Kaup þjóðarsjóðs Katar á PSG árið 2011 hafa oft á tíðum verið tengd við Heimsmeistaramótið í Katar og vilja yfirvalda í Katar til að gera sig gildandi í alþjóðlega fótboltaheiminum. Al-Khelaifi segir að eigendur félagsins hafi ekki misst áhuga á fótbolta nú þegar HM hefur gengið í garð. Það sé einfaldlega vilji eigendanna að fá inn utanaðkomandi sérfræðiþekkingu til að hjálpa félaginu að vaxa enn frekar.

Ef QSI selur 15% hlut í PSG sem byggir á fjögurra milljarða evra verðmati, má áætla að um 600 milljónir evra fáist fyrir hlutinn. Það yrði ágætis ávöxtun, en QSI keypti félagið á 70 milljónir evra árið 2011.

Þá er PSG með það til skoðunar að yfirgefa núverandi heimavöll liðsins Parc de Princes sem tekur um 48 þúsund áhorfendur. Al-Khelaifi segir að félagið hafi átt í viðræðum við borgarstjórn Parísar undanfarin 4-5 ár um að stækka og bæta leikvanginn en að þær hafi borið lítinn árangur.

Samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg er einn þessara valkosta að kaupa Stade de France, heimavöll landsliðs Frakka sem tekur 80 þúsund áhorfendur, af franska ríkissjóðnum.