Það er greinilegt að Íslendingar hafa tekið vel á móti Teslu Model Y. Bíllinn hefur nú í tvö ár verið söluhæsta bíltegundin á Íslandi og er hún nú búin að slá met Toyotu Corollu frá 1988 en það ár seldust 1125 Corollur. Oft er stundaður sá leikur á ökuferðum með börnin um borgina að telja hversu margar Teslur krakkarnir sjá og fer þeim fjölgandi.

Það var því nokkur eftirvænting að fá tækifæri á að kynnast Tesla Model Y betur. Skiptar skoðanir hafa verið í fjölskyldunni um ágæti Teslu. Útlitslega hefur sumum fundist rótgrónari bílaframleiðendur smíðað fallegri bíla og síðan er þetta með að vilja skera sig úr fjöldanum. Flestir hafa sína skoðun á Teslunni og sýnir það kannski á hvaða stall Tesla hefur komið sér á.

Hönnun bílsins er sérstök og nýjungarnar sem Tesla hefur komið með oft athyglisverðar. Síðan er þetta með mælaborðið eða ekki mælaborð. Oft tekur smá tíma að venjast þessum nýjungum og óhætt að segja að fyrstu kynni fjölskyldunnar af bílnum hafi verið mjög jákvæð.

15” skjárinn miðpunkturinn

Sá bíll sem var reynsluekinn var Tesla Model Y Duel Motor Long Range. Kannski sá bíll sem hentar hvað best íslenskum aðstæðum með 15,7 cm veghæð. Bíllinn er fjórhjóladrifinn og líkt og nafnið gefur til kynna eru tveir mótorar sem knýja bílinn áfram, einn á hvorum öxli.

Hægt er að stilla um mismunandi akstursstillingar eftir þörfum og er það allt gert á 15” snertiskjánum sem er fyrir miðju framstokksins. Þar má segja að stjórnstöð og miðpunktur bílsins sé, hvort sem er á ferð eða þegar afþreyingar er þörf þegar hlaða á bílinn.

Á skjánum er einnig hraðamælir sem og þrívíddarmynd sem sýnir umferð hringinn í kringum bílinn, fólks sem farartækja. Er þetta hluti af akstursöryggisbúnaði bílsins, en árekstrarvari að framan sem og neyðarhemlun og akreina skynjari er staðalbúnaður í Tesla Model Y.

Innanrýmið er með því einfaldasta og stór 15” snertiskjárinn fyrir miðju.
Innanrýmið er með því einfaldasta og stór 15” snertiskjárinn fyrir miðju.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í sérblaðinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.