Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur skipað Arnar Má Ólafsson til að gegna embætti ferðamálastjóra. Arnar Már var annar af tveimur einstaklingum úr hópi þrettán umsækjenda sem hæfisnefnd taldi hæfasta til að gegna embættinu.

„Að loknum ráðningarviðtölum ráðherra var það heildstætt mat að Arnar Már Ólafsson stæði öðrum umsækjendum framar, sakir umfangsmeiri reynslu af árangursríkri stjórnun, hagnýtrar og fjölbreyttrar reynslu á sviði ferðamála, yfirgripsmikillar þekkingar og menntunar ásamt skýrrar sýnar á stefnumótandi verkefni Ferðamálastofu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Skipunin er til fimm ára samkvæmt meginreglu um skipan forstöðumanna ríkisstofnana. Arnar Már mun taka við embætti ferðamálastjóra hinn 1. mars 2023 en fram að því mun Elías Bj. Gíslason verða starfandi ferðamálastjóri. Skarphéðinn Steinarsson hefur gegnt embættinu síðastliðin fimm ár.

Arnar Már starfaði síðast sem leiðtogi markaðsmála hjá Icelandia, samstæðunni utan um Kynnisferðir. Áður starfaði hann um árabil hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Iceland Rovers ásamt því að hafa starfað sem leiðsögumaður í tugi ára.

Arnar Már er með meistaragráðu á sviði alþjóðamarkaðs- og ferðamálafræða frá Université de Savoie. Hann hefur starfað sem kennari í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, lektor og brautarstjóri ferðamálafræði við Háskólann á Akureyri ásamt því að hafa gegnt stöðu forstöðumanns Ferðamálaseturs Íslands.