Berta Daníelsdóttir hefur tekið við sem forstjóri alþjóðlega framleiðslufyrirtækisins Hotraco Group, sem er með höfuðstöðvar í Hollandi.

Berta hóf störf sem framkvæmdastjóri sölusviðs Hotraco árið 2021. Félagið framleiðir framleiðslubúnað og rekjanleikakerfi fyrir matvæli.

Á heimasíðu félagsins kemur fram að hjá fyrirtækinu starfi yfir 250 starfsmenn, félagið veltir yfir 60 milljónum evra á ári eða um níu milljörðum íslenskra króna og það hafi sinnt verkefnum í yfr 40 löndum.

Berta var framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans árin 2016 til 2021. Þá starfaði Berta hjá Marel um átján ára skeið frá 1998 til 2016, síðast sem breytingastjóri.

Berta er með BA próf í stjórnun frá HR og MSc próf í stjórnun alþjóðafyrirtækja frá Háskólanum á Akureyri.