Darri Steinn Konráðsson hefur verið ráðinn tæknistjóri (CTO) hjá NeckCare og hefur þegar hafið störf. Undanfarin ár hefur Daði Steinn stýrt eigin fyrirtæki, Vice Versa, sem hefur verið lykilaðili í vegferð Stafræns Íslands, að því er segir í tilkynningu.

Þá hafi hann starfað sem hugbúnaðarsérfræðingur fyrir TripAdvisor og Takumi en hefur þar að auki starfað hjá fyrirtækinu ABB í Sviss.

NeckCare er nýsköpunarfyrirtæki í heilbrigðistækni stofnað árið 2019 sem byggir á rannsóknum sem ná aftur til ársins 2003. NeckCare þróar og selur hugbúnað og vélbúnað sem gefur hlutlægt mat á hálsáverkum og verkjum í hálsi.

„Ég er einstaklega ánægður með það að vera kominn til NeckCare og að koma inn í þann frábæra hóp sem þar starfar. Það er spennandi að fá tækifæri til að starfa með hámenntuðum sérfræðingum úr fjölbreyttum starfsgreinum og taka þátt í því að búa til framúrskarandi vöru og öflugt fyrirtæki. Ég er spenntur fyrir þeirri vegferð sem NeckCare er á og hlakka til að setja mark mitt á tækni- og vöruþróun fyrirtækisins,” segir Darri Steinn, nýr tæknistjóri NeckCare.

„Það er alveg frábært að fá Darra til liðs við okkur. Ég held að það sé óhætt að segja að hann sé einn af efnilegustu hugbúnaðarsérfræðingum landsins. Hann hefur víðtæka þekkingu á sviði tækniþróunar, hvort sem um ræðir tæknilega innviði, öryggismál eða forritun. Hugbúnaður NeckCare er í stöðugri þróun og það er mikilvægt að það sem frá okkur kemur sé öruggt, skilvirkt og mæti þörfum viðskiptavina. Það er því mikill fengur að fá Darra til þess að leiða tækni- og vöruþróun NeckCare á þessum spennandi tímum fyrirtækisins,“ segir Sigurður Orri Guðmundsson, framkvæmdastjóri NeckCare.