Ráðningarfyrirtækið Alfreð hefur ráðið Guðmund Jónsson í stöðu vöruþróunarstjóra en hann mun fara með yfirstjórn vöru- og viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningu segir að Guðmundur hafi í meira en áratug komið að innleiðingu, þjónustu og þróun hugbúnaðar og nýjunga í upplýsingatækni.

Lengst af hafi hann starfað fyrir Point á Íslandi og síðan Verifone Inc. þar sem hann stýrði þróun greiðslulausna fyrir Norðurlöndin um tveggja ára skeið. Frá árinu 2016 fram til ársloka starfaði hann sem framkvæmdastjóri Verifone á Íslandi.

Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Alfreðs, segir að það sé þeim mikill fengur að fá reynslubolta eins og Guðmund í þeirra raðir.

Ábyrgðarsvið Guðmundar nái einnig til nýrrar vara sem Alfreð hefur verið að þróa. Þar á meðal er Giggó, nýtt app sem kynnt var í byrjun árs og er alhliða markaðstorg fyrir gigghagkerfið þar sem finna má fagmenn til að leysa afmörkuð verkefni.

„Við fögnum því að hafa fengið Guðmund í teymið á þessum tímapunkti. Reynsla hans af vöruþróun á nýjum mörkuðum er frábær innspýting fyrir alla okkar þjónustu, ekki síst fyrir nýjar lausnir eins og Giggó og aðrar vörur sem enn eru á teikniborðinu,“ segir Anna Katrín.

Guðmundur útskrifaðist með sveinspróf í rafeindavirkjun árið 1994, próf í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2004 og MBA frá Háskóla Íslands árið 2017. Þá lagði hann stund á leiðtoga- og nýsköpunarfræði og nám í hagnnýtingu gervigreindar við MIT árin 2021 og 2024.