Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur ráðið Stefaníu Nindel í starf framkvæmdastjóra fjármála og stafrænna innviða og hóf hún störf 1. maí síðastliðinn. Hún er með M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja og er viðurkenndur stjórnarmaður.

FSRE hefur það hlutverk að skapa og viðhalda aðstöðu sem nýtist fyrir þjónustu ríkisins við borgarana.

Stefanía kemur til starfa frá Borgarverki þar sem hún var síðastliðin átta ár, síðast sem sviðsstjóri fjármálasviðs. Þar áður starfaði hún sem rekstrarstjóri hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði og sem fjármálastjóri hjá Menntaskóla Borgarfjarðar.

Þar að auki hefur Stefanía starfað sem kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hún kenndi rekstraráfanga. Í störfum sínum á sviði fjármálastjórnunar hefur hún reynslu af helstu viðfangsefnum fjármála og haft umsjón með áætlanagerð, greiningum, uppgjöri og mannauðsmálum.