*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 29. maí 2020 10:10

11,4 milljarða viðskiptaafgangur

Viðskiptaafgangur lækkaði um 78% milli ársfjórðunga en halli á vöruviðskiptum nam 18,6 milljörðum króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 var 11,4 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd samanborið við 50,9 milljarða króna afgang ársfjórðunginn á undan, en þetta kemur fram á vef Seðlabankans.

Minni viðskiptaafgangur skýrist aðallega af umtalsvert óhagstæðari vöruviðskiptum sem nemur 21,3 milljörðum króna. Munar þar mest um 26,4 milljarða króna minni útflutningstekjur, en einnig var verðmæti innfluttra vara lægra um sem nemur 5,1 milljörðum króna.

Halli á vöruskiptajöfnuði var 18,6 milljarðar króna en afgangur á þjónustujöfnuði nam um 24 milljarða króna. Frumþáttatekjur skiluðu 14,2 milljarða króna afgangi en rekstrarframlög 8,3 milljarða halla. 

Hrein staða við útlönd var jákvæð um 692 milljarða króna eða 23,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 64 milljarða króna eða 2,2% af vergri landsframleiðslu á fjórðungnum.