Skiptum á þrotabúi eignarhaldsfélags Hannesar Smárasonar, Runnur 4 ehf., sem hélt utan um hlut hans í Teymi, lauk árið 2015, en vegna mistaka voru skiptalokin ekki tilkynnt í Lögbirtingablaðinu fyrr en í gær. Engar eignir voru til skiptanna, en lýstar kröfur námu hátt í 1,3 milljörðum króna.

Teymi var umfangsmikið félag á sviði fjarskipta og upplýsingatækni fyrir hrun sem var skráð í kauphöll. Meðal dótturfélaga þess var fjarskiptafyrirtækið Vodafone, sem í dag er hluti af samstæðu Sýnar, og upplýsingafyrirtækin Skýrr, EJS og HugurAx, sem síðar sameinuðust og urðu Advania .

Teymi lenti í verulegum rekstrarvanda þegar gengi krónunnar tók að gefa eftir árið 2008, og í lok júlí lögðu stjórnendur félagsins til að það yrði afskráð. Það var samþykkt af hluthöfum og kauphöllinni, og bréf þess tekin úr viðskiptum í miðju hruninu í upphafi október sama ár.

Í apríl 2009 leituðu forsvarsmenn félagsins nauðasamnings við kröfuhafa til að forða því frá gjaldþroti. Endurskipulagning félagsins fól meðal annars í sér að kröfuhafar tóku félagið yfir og eignarhlutur fyrri eigenda var afskrifaður með öllu. Þar með urðu eignir Runns 4 að engu, og í nóvember 2014 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta.