Icelandair flutti 219 þúsund flugfarþega í millilandaflugi í maí, sem er 14% aukning frá sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

18% aukning var í framboðnum sætiskílómetrum en sætanýting var 77,1%. Sætanýting dróst saman um 1,6 prósentustig milli ára. Fella þurfti niður 92 flug og breyta um 12 þúsund bókunum vegna aðgerða flugmanna í mánuðinum.

Í tilkynningunni kemur fram að farþegum í innanlandsflugi og Grænlandsflugi hafi fækkað um fimm prósent milli ára en þeir voru um 24 þúsund í maí. Framboð félagsins í innanlands og Grænlandsflugi var dregið saman um 5% í mánuðinum. Sætanýting nam 70,8% og dróst saman um 0,7 prósentustig á milli ára.