LS Retail hagnaðist um 8,8 milljónir evra, eða sem nemur um 1,4 milljörðum króna, á síðasta rekstrarári samanborið við 5,2 milljóna evra hagnað árið áður.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu rúmlega 59 milljónum evra og jukust um 14,2% en tekjurnar námu 51,7 milljónum árið áður. Rekstrargjöld jukust frá fyrra ári og námu 44,5 milljónum evra samanborið við 41,6 milljónir árið áður.

Eignir námu 42,7 milljónum evra og eigið fé félagsins nam 21,7 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall var því 51% í árslok 2019. Laun og launatengd gjöld námu 16,4 milljónum evra og hækkaði launakostnaðurinn um 1,2 milljónir evra á milli ára.

Að meðaltali störfuðu 212 manns hjá fyrirtækinu í fyrra en 210 árið áður. Fyrirtækið er með starfsmenn í 18 löndum og hafa viðskiptalausnir þess verið settar upp í yfir 130 löndum.