Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2005 nam 1.431 m.kr., jókst um 28% miðað við sama tímabil í fyrra. Miklar breytingar hafa verið gerðar á reikningsskilum félagsins til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Hagnaður á hlut á fyrsta ársfjórðungi nam 1,56 krónum samanborið við 1,20 krónur miðað við sama tímabil 2004.

Hreinar tekjur félagsins námu 2.995 m.kr. fyrstu þrjá mánuði ársins 2005 samanborið við 2.937 m.kr. á sama tímabili í fyrra.

Fjárfestingatekjur félagsins nema 1.765 m.kr. og hækka um 5% á milli tímabila. Eigin iðgjöld félagsins lækka um 2% á sama tíma og nema 1.230 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi.

Eigin tjónakostnaður félagsins er svipaður og á fyrsta ársfjórðungi 2004 þegar hann nam 1.259 m.kr. en er nú 1.288 m.kr. Áhrif brunatjóns í fiskimjölsverksmiðju Samherja í febrúar nema um 200 m.kr. á ársfjórðungnum.

Rekstrarkostnaður TM var 472 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2005 í samanburði við 324 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Hækkun rekstrarkostnaðar skýrist fyrst og fremst af starfslokasamningum sem gerðir voru vegna skipulagsbreytinga.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga nemur 482 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi.

Heildareignir TM aukast úr 23.105 m.kr. þann 1. janúar 2005 í 26.606 m.kr þann 31. mars 2005 eða um 15%.

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir heildarafkomu félagsins ágæta. ?Fjárfestingatekjur eru að bera uppi hagnaðinn og vaxa um ríflega 5% frá sama tíma í fyrra og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga er að aukast um tæplega hálfan milljarð. Hins vegar er tap af vátryggingarekstrinum. Það skýrist einkum af tvennu. Annars vegar er tjónaþungi á félaginu í meira lagi á fyrsta ársfjórðungi, vegna stórtjóns hjá einum vátryggjanda. Hins vegar er samkeppni á markaði bílatrygginga afar hörð og iðgjaldatekjur af þeim hafa lækkað. Um helmingur iðgjaldatekna TM er af bílatryggingum. Umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá félaginu eru komnar vel á veg. Markmiðið með þeim er einkum að skerpa og efla sókn félagsins á vátryggingamarkaði. Hluti skipulagsbreytinganna var innleiðing nýs skipurits en annað meginmarkmið breytinganna er að gera verkaskiptingu og ábyrgð einstakra stjórnenda og starfsmanna skýrari. Það er trú stjórnenda að áhrif þessara breytinga endurspeglist í framtíðinni í betri afkomu vátryggingastarfsemi og markvissri fjárfestingarstarfsemi,? segir Óskar Magnússon.