Stjórn Icelandic Group hf. hefur boðað til hluthafafundar þriðjudaginn 11. nóvember nk. Fyrir fundinn verður lögð tillaga um lækkun hlutafjár til jöfnunar á uppsöfnuðu tapi og í kjölfarið tillaga um hlutafjárhækkun. Verði tillögurnar samþykktar mun Eignarhaldsfélagið IG ehf., sem m.a. er í eigu Brims hf. og Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., skrá sig fyrir hlutafjáraukningunni og um leið verða stærsti hluthafi Icelandic Group, segir í fréttatilkynningu.

Hlutafjáraukningin skapar grundvöll til verulegrar lækkunar vaxtaberandi skulda Icelandic Group. Eftir breytingarnar verður eiginfjárhlutfall Icelandic Group um 30%, segir í tilkynningunni.

Icelandic Group flytur út, framleiðir og selur sjávarafurðir um allan heim. Á meðal viðskiptavina félagsins eru allar helstu matvörukeðjur og dreifingarfyrirtæki í Evrópu og USA og skilar starfsemin umtalsverðum gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Rekstur félagsins hefur verið erfiður um skeið og var félagið afskráð úr Kauphöllinni síðastliðið vor.

Með endurskipulagningunni er traustum stoðum rennt undir áframhaldandi rekstur og eru stjórnendur félagsins að auki bjartsýnir á að þrátt fyrir samdrátt á markaðssvæðum Icelandic muni ekki draga úr eftirspurn eftir afurðum félagsins. Stefnt er að því að skrá Icelandic Group í kauphöll á nýjan leik eins fljótt og aðstæður á hlutabréfamörkuðum leyfa.

„Stjórn Icelandic Group leggur mikla áherslu á að tillögurnar nái fram að ganga. Styrking á efnahagsreikningi félagsins er nauðsynleg forsenda fyrir öflugri starfsemi sem byggir á þeim árangri sem þegar hefur náðst í viðsnúningi á rekstrinum. Mikilvægt er fyrir félagið að sýna fjárhagslegan styrk á þessum óvissutímum þegar aðgangur að lánsfé er erfiður. Tekjur Icelandic Group verða að mestu leyti til erlendis og nauðsynlegt er að Ísland fái áfram gjaldeyristekjur inn í landið eins greiðlega og mögulegt er. Icelandic Group hefur gegnt lykilhlutverki í markaðssetningu og dreifingu íslenskra sjávarafurða um allan heim og með þessari endurskipulagningu getum við lagt okkar af mörkum til þess að Ísland haldi sínu góða orðspori í sjávarútvegi og viðskiptum með fiskafurðir“, segir Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Icelandic Group í fréttatilkynningunni.

„Stjórnendur Icelandic hafa linnulaust unnið að hagræðingu í rekstri félagsins að undanförnu, bæði með sölu eigna og breytingum á framleiðslu- og sölueiningum. Starfsemin er afar umfangsmikil og um fimm þúsund starfsmenn okkar framleiða fiskafurðir fyrir hátt í fimm milljónir manna á hverjum degi. Sterk markaðsstaða gefur okkur tækifæri til sóknar og þess vegna er traustur fjárhagsgrunnur afar mikilvægur. Í kjölfar þessara breytinga getur starfsfólk okkar, viðskiptavinir, birgjar og aðrir samstarfsaðilar víða um heim áfram borið fullt traust til starfsemi Icelandic þrátt fyrir þrengingar á Íslandi og á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Icelandic Group stendur fyrir gæði og góða þjónustu og í þeim efnum verður hvergi slegið af í rekstrinum framundan,“ segir Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group, í fréttatilkynningunni.