Alls tóku 209 fjárfestar, þar af voru 190 innlendir og 19 erlendir, þátt í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka, sem fór fram í síðustu viku, en söluverð nam 52,65 milljörðum. Hlutur innlendra fjárfesta af úthlutun nam 85% en íslenskir lífeyrissjóðir fengu 37,1% af úthlutuninni og greiddu 19,5 milljarða fyrir. Þetta kemur fram í glærukynningu Bankasýslunnar fyrir ráðherrafund um efnahagsmál í morgun.

Þá segir að fjöldi innlendra einkafjárfesta hafi verið 140 talsins „en áskriftir þeirra voru skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu“. Íslenskir einkafjárfestar fengu alls úthlutað 30,6% af úthlutun í útboðinu í síðustu viku og nam kaupverð þeirra 16,1 milljarði króna. Þrettán innlendur verðbréfasjóðir tóku þátt og fengu þeir 10,6% af úthlutuninni.

Af þeim nítján erlendu fjárfestum sem tóku þátt í útboðinu voru sjö flokkaðir sem „erlendir gnótt fjárfestar“. Þeir fengu um 8,3% af úthlutinni fyrir 4,4 milljarða.

Fimmtán fjárfestar fengu úthlutað hlut í Íslandsbanka að andvirði meira en einum milljarði króna í útboðinu. Bankasýslan sýnir á eftirfarandi mynd hvernig dreifing var í útboðinu.

Afslátturinn minni en víðast hvar

Söluverðið í útboðinu var 117 krónur á hlut og var um 4,1% lægra en 122 króna lokaverðið á markaði fyrr um daginn. Var það lægri afsláttur en í sambærilegum útboðum en samkvæmt samantekt ráðgjafans STJ Advisors Group var 6,4% afsláttur að meðaltali í útboðum með tilboðsfyrirkomulagi í Evrópu í ár, og 8,7% frá innrásinni í Úkraínu.

Bankasýslan bendir á að útboðsmagnið hafi samsvarað um 300 dögum af meðaltals dagveltu með hluti í Íslandsbanka. Til samanburðar var 39 daga velta að meðaltali í útboðum með tilboðsfyrirkomulagi í Evrópu í ár.

Bankasýslan tók saman fjögur önnur sambærileg útboð með tilboðsfyrirkomulagi á síðustu árum. Í einungis einu tilviki var frávik frá lokagengi minna en í útboði Íslandsbanka. Það var hjá hollenska bankanum ABN AMRO árið 2016 en þá var 2,4% afsláttur en útboðsmagn, reiknað í fjölda viðskiptadaga, var sexfalt meira í tilviki Íslandsbanka.

„Samkvæmt samantekt söluráðgjafa Bankasýslu ríkisins var frávik frá lokaverði lægra og útboðsmagn hærra heldur en meðaltal ársins 2019, ársins 2020, ársins 2021 og ársins 2022 í sambærilegum útboðum með tilboðsfyrirkomulagi í Evrópu.“

Hlutbréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað í kjölfar útboðsins og stendur nú í 127 krónum á hlut sem er um 8,5% hærra en söluverðið í útboðinu. Bankasýslan segir að jákvæð þróun eftirmarkaði „sem m.a. endurspeglast í hækkun hluta í Íslandsbanka,“ ætti að auðvelda frekari sölu hluta í bankanum á markaði.

Myndir eru teknar úr kynningu Bankasýslunnar.