*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 2. október 2014 12:59

21 milljón úr Myndlistarsjóði

Myndlistarhátíðin Sequences hlaut stærstu styrkfjárhæðina úr Myndlistarsjóði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Myndlistarráð tilkynnti í gær hvaða verkefni myndu hljóta styrk úr Myndlistarsjóði. Alls bárust sjóðnum 112 umsóknir að þessu sinni að heildarupphæð 107 milljónir en 21 milljón fer þetta árið til 45 verkefna myndlistarmanna og fagaðila á sviði myndlistar.

Hæstu styrkupphæðina hlaut myndlistarhátíðin Sequences eða 1,8 milljónir króna, til að halda sjöundu útgáfu hátíðarinnar á næsta ári. Samkvæmt fjárlögum ársins 2015 er gert ráð fyrir því að framlag til Myndlistarsjóðs verði 15 milljónir króna á næsta ári en það er 1/3 af framlagi ríkisins til sjóðsins árið 2013 þegar fyrst var úthlutað úr honum. Nýlega boðaði Samband íslenskra myndlistarmanna til undirskriftarsöfnunar til að skora á ríkisstjórnina til að hækka framlag til Myndlistarsjóðs en hann var stofnaður með sérstökum Myndlistarlögum árið 2012.