Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að veita 25 milljóna króna stofnframlag til verkefnis um að byggja upp rafræn samskipti á milli heilbrigðisstofnana. Þetta var tilkynnt fyrr í dag þegar ráðherra staðfesti samning um tilfærslu verkefna frá Landspítala til fjögurra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, samning sem ráðherra sagði við það tækifæri að markaði „tímamót í heilbrigðisþjónustu í landinu.”

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, kvaðst ætlast til að fagþekking og mannauður á stofnununum nýtist sem best á öllum stofnununum, að heilbrigðisþjónusta verði veitt í ríkari mæli í heimabyggð, og að rafræn samskipti milli heilbrigðisstofnana á svæðinu verði stóraukin.

„Þetta síðast talda er afar brýnt og ég sé fyrir mér að einmitt á sviði rafrænna samskipta geti samkomulagið skapað nýjar forsendur og þróun á þessu sviði,” sagði Guðlaugur. „Ráðuneytið hefur slegið á að heildarkostnaður við að byggja upp rafræn samskipti gæti verið um 60 milljónir króna, en síðar kemur til árlegur rekstrarkostnaður sem skipt verður á milli aðila þegar fram líða stundir eftir ákveðnum reglum. Það er mikilvægt að verja talsverðu fé til verkefnisins í byrjun til þess að tryggja framgang þess og hefur þvi ráðuneytið ákveðið að veita 25 milljónir króna stofnframlagi til verkefnisins sem þó dreifist á ákveðinn tíma eftir framgangi þess.”