*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 14. maí 2019 13:43

250 milljarða skaðabætur vegna Roundup

Bayer var dæmt til að greiða hjónum 2 milljarða vegna krabbameins af völdum Roundup. 13.000 eins mál bíða fyrirtöku.

Ritstjórn
Illgresiseyðirinn Roundup, sem áður var framleiddur af Monsanto, en Bayer keypti Monsanto í fyrra.
european pressphoto agency

Dómstóll í Kaliforníu dæmdi í gær þýsku lyfja- og líftæknisamsteypuna Bayer til að greiða hjónum 2 milljarða Bandaríkjadala – ígildi um 250 milljarða króna – vegna krabbameins sem hjónin sögðu illgresiseyðinn Roundup bera sök á. Financial Times segir frá.

Þýska samsteypan keypti bandaríska fyrirtækið Monsanto – sem framleiðir efni eins og skordýraeitur og áburð fyrir landbúnað – á 63 milljarða dala á síðasta ári, en segja má að með því hafi þjóðverjarnir keypt köttinn í sekknum. Fyrirtækið hefur tvívegis áður verið dæmt til að greiða skaðabætur, 290 milljón dali í öðru tilvikinu, og 80 í hinu, vegna illgresiseyðisins, en um 13 þúsund sambærileg mál bíða enn fyrirtöku.

Ekkert þeirra mála sem dæmt hefur verið í hefur þó verið útkljáð endanlega fyrir hæsta viðeigandi dómsstigi, og því er ekki útséð enn hvort félagið mun enda á að þurfa að greiða nokkrar bætur vegna efnisins.

Raunar eru stjórnendur Bayer svo vissir í sinni sök – en þeir halda því statt og stöðugt fram að efnið sé öruggt og valdi ekki krabbameini – að engir fjármunir hafa verið lagðir til hliðar til að standa undir hugsanlegum skaðabótagreiðslum.

Stikkorð: Bayer Monsanto Roundup