Rúmlega 30% þátttakenda í Þjóðarpúlsi Capacent Gallup taka ýmist ekki afstöðu til einstakra stjórnmálaflokka, neita að gefa hana upp eða myndu skila auðu ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Þetta kemur fram í nýjasta þjóðarpúlsinum sem birtur er á vef Capacent í dag.

Af þeim tæplega 70% sem nefna einhvern flokk sem þeir myndu kjósa færu kosningar til Alþingis fram í dag segjast ríflega 38% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 21% að þeir myndu kjósa Samfylkinguna, rösklega 14% Framsóknarflokkinn, tæplega 14% Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og tæplega 3% Hreyfinguna. Einn af hverjum tíu segist myndi kjósa aðra flokka en sæti eiga á Alþingi í dag.

Fylgi flokka hreyfist því lítið á milli mánaða þar sem fylgi flokkanna var með svipuðum hætti í síðasta mánuði. Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar þó um eitt prósentustig milli mánaða en stuðningur við hana mælist nú 32%.

Sem fyrr segir eru um 30% kjósenda óákveðnir eða líklegir til þess að skila auðu. Nær 15% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og tæplega 16% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Sjá niðurstöðurnar í heild sinni.

Alþingi
Alþingi
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)