30% söluaukning hefur orðið í umbúðaframleiðslu hjá Prentsmiðjunni Odda í októbermánuði miðað við sama mánuð í fyrra. Að sögn Jóns Ómars Erlingssonar, framkvæmdastjóra Odda, hefur gengið mjög vel að fá verkefni undanfarið í kjölfar veikingar á krónunni.

,,Við finnum vel fyrir því í sjávarútveginum að menn leita frekar til okkar núna. Þannig hafa innlendar útgerðir verið að flytja sig yfir til okkar sem er mikil breyting frá því krónan var sem sterkust fyrir einu og hálfu ári," sagði Jón Ómar.

Jón Ómar sagði að fyrir skömmu hefði verið gengið frá því að Prentsmiðjan Oddi muni framleiða 300.000 öskjur undir frystan fisk fyrir þýska sjávarútvegsfyrirtækið Deutsche Fischfang Union sem er í eigu Samherja. Deutsche Fischfang gerir út sex togara og mun öskjurnar duga Deutsche Fishfang í um tvo mánuði. Íslensku öskjurnar verða settar um boð í togarana í næsta mánuði.

Að sögn Jóns Ómars hefur félagið þekkingu í framleiðslu vaxhúðaðra askja sem hefur fært þeim nokkur viðskipti enda ekki margar prentsmiðjur sem eru færar um slíkt. ,,Vonandi sjáum við enn meiri viðskipti enda hefur það sýnt sig að íslensk fyrirtæki vilja gjarnan skipta hvort við annað á þessum tímum."