Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í gær að 300 milljóna króna greiðslur við upphaf starfs eða starfslok væru dæmi um glerhús fáránleikans á litla Íslandi.

„Ég fagna því ef bankakerfið er að átta sig á því að svona launataka gengur ekki upp hér,“ sagði hann. Guðni var þarna að fjalla um erfiðleikana í efnahagslífinu.

Hann sagði jafnframt að miklar viðsjár blöstu við íslensku útrásinni. Athafnamenn Íslands ættu erfitt -- ekki síst bankar og fjármálafyrirtæki.

„Þar eru auðvitað verst sjálfskaparvítin: Offar og ofurlaun, lúxus og bruðl sem hefur einkennt síðustu árin. Þá er samúð almennings [...] töluvert fjarri þegar erfiðleikar blasa við.“

Guðni ítrekaði á Alþingi í gær óskir sínar um að stjórnvöld hefðu frumkvæði að því að kynna á erlendri grund sterka stöðu þjóðarbúsins, skuldlausan ríkissjóð, sterkt lífeyrissjóðakerfi og sterka eiginfjárstöðu bankanna. Geir H. Haarde forsætisráðherra svaraði því meðal annars til að undirbúningur þeirrar vinnu væri á fullri ferð á vegum ráðuneytisins.