Íslenskur kaffimarkaður hefur tekið stórtækum breytingum á síðustu áratugum og með auknum kröfum Íslendinga hefur neyslan breyst mikið. Tölur sýna að innflutningur á kaffi hefur aukist jafnt og þétt frá aldamótum og að sögn þeirra sem starfa á markaðnum verður samkeppnin sífellt harðari samhliða auknum kröfum neytenda. Segja má að kaffineysla endurspegli á einhvern hátt mismunandi tíma á Íslandi, allt frá því er Árni Magnússon lét smíða fyrir sig kílóaþunga silfurkaffikönnu árið 1721 eða þegar Norðlendingar neituðu að drekka nokkuð annað en Bragakaffi og til dagsins í dag þar sem kaffi er framreitt af sérmenntuðu starfsfólki á kaffihúsum landsins.

Ekki er með réttu hægt að bera saman öll íslensk fyrirtæki sem versla með kaffi enda markaðurinn í eðli sínu mismunandi hvort sem fyrirtæki stunda kaffibrennslu hér á landi, selja vörur sínar í heildsölu, haldi úti kaffihúsarekstri og svo framvegis. Viðskiptablaðið valdi því af handahófi fyrirtækin Kaffitár, Te og kaffi og Nýju kaffibrennsluna og skoðaði rekstrartölur þeirra og ræddi við stjórnendur.

31% aukning frá aldamótum

Þrátt fyrir að Íslendingum séu margir vegir færir þegar kemur að landbúnaði hafa þeir ekki enn náð tökum á kaffiræktun og er þar ef til vill heldur um að kenna slitróttu veðurfari fremur en metnaðarleysi íslenskra bænda. Það er því nokkuð sjálfgefið að allt kaffi þarf að flytja inn frá veðursælli löndum. Gögn Hagstofunnar sýna að innflutningur á kaffi hefur aukist nánast jafnt og þétt frá aldamótum, með örfáum undantekningum þó, en þannig dró til að mynda aðeins úr kaffineyslu landsmanna á árunum eftir hrun. Sérstaka athygli vekur sú aukning sem orðið hefur á kaffineyslu undanfarin þrjú ár, en frá árinu 2014 jókst innflutningur um 13% úr 2.345 tonnum í 2.655 tonn árið 2016. Leiða má líkur að því að aukinn straumur ferðamanna til landsins síðustu ár hafi þar nokkur áhrif. Ef litið er lengra til baka má sjá að innflutningur á kaffi hefur aukist um 31% prósent frá árinu 1999.

Kaffiinnfluttur
Kaffiinnfluttur
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublað.