Á hverri mínútu eru 35 klukkustundir af myndböndum vistaðar á vefsíðunni YouTube.com. Það jafngildir 2.100 klukkustundum af efni á einni klukkustund, eða 50.400 uppfluttum (e. uploaded) klukkustundum á vefsíðuna hvern einasta dag.

Þetta kemur fram á bloggsíðu Google en í mars síðastliðnum var greint frá því að á hverri mínútu voru 24 klukkustundir af efni settar á síðuna.

Ef gert er ráð fyrir að hver Hollywood-kvikmynd sé að meðaltali um 120 mínútur að lengd þá jafngildir uppflutningur á YouTube um 176.000 kvikmyndum á viku hverri.