Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur veitt styrki úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði, samtals 50 milljónir króna.

Þrjátíu og ein umsókn bárust, þar af var 21 vegna stærri verkefna og 10 vegna minni verkefna. Alls var sótt um styrki fyrir 111 milljónir króna eða meira en tvöfalt það fé sem til úthlutunar var.

Fimmtán verkefni voru styrkt að þessu sinni og fjalla þau um 9 mismunandi tegundir sjávarlífvera, allt frá þangi til hvala. Þorskur er aðalviðfangsefnið í 6 verkefnum, og til þeirra rann um helmingur styrkfjárins. Það er í samræmi við áherslur ráðherra á að auka fé deildarinnar, en aukningunni skyldi að öðru jöfnu varið til þorskrannsókna.

Ráðherra ákvað á síðasta ári að tvöfalda fé deildarinnar og var því hægt að styrkja flest samþykkt verkefni að fullu miðað við umsókn.