Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 3,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi. Þar af nam hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 589 milljónum króna og hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 2,7 milljörðum króna. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nam 6,1% á fjórðungnum og samsett hlutfall var 91,2%.

Þar með nam hagnaður Sjóvá á fyrri helmingi árs tæplega 5,2 milljörðum króna, en til samanburðar nam hagnaður sama tímabils í fyrra ríflega einum milljarði króna. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 1,1 milljarði króna og hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 4,4 milljörðum króna. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nam 10,1% og samsett hlutfall var 91,3%. Til samanburðar nam samsett hlutfall 97,7% á fyrri helmingi árs í fyrra.

Horfur fyrir árið 2021 gera ráð fyrir að samsett hlutfall verði um 92% og að hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 2,2 milljarðar króna. Horfur til næstu 12 mánaða (3F 2021 - 2F 2022) gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 2,5 milljarðar króna og samsett hlutfall um 91%.

Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nemi alla jafna um 5% á ársgrundvelli til lengri tíma án vaxtatekna af viðskiptakröfum miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu félagsins. Miðað við ávöxtun fjárfestingareigna það sem af er ári má vænta að ávöxtun nemi um 13,5% á árinu 2021.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá:

„Hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins nam 5.179 m.kr. og er að stórum hluta tilkominn vegna góðrar ávöxtunar á eignasafni félagsins sem nam 10% á tímabilinu. Þróun á eignamörkuðum hefur verið hagstæð og langt umfram væntingar. Hafa þarf í huga að miklar sveiflur einkenna afkomu af fjárfestingarstarfsemi yfir lengri tíma.

Vátryggingareksturinn skilaði mjög góðri afkomu og einkenndist af áframhaldandi kröftugum iðgjaldavexti og hagstæðri tjónaþróun. Iðgjaldavöxtur nam 16% á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra en vert er að benda á að í fyrra var felldur niður einn gjalddagi í ökutækjatryggingum einstaklinga sem nam 650 m.kr. Iðgjöld vaxa bæði á einstaklingsmarkaði og fyrirtækjamarkaði en þar sjáum við viðsnúning á milli fjórðunga og ára eftir samdrátt undanfarið. Iðgjaldavöxtur á fyrirtækjamarkaði er bæði tilkominn vegna nýrra viðskipta og ánægjulegrar þróunar hjá ferðaþjónustuaðilum þar sem sumarið fór vel af stað.

Fjárhagslegur styrkur félagsins hefur aukist umtalsvert í ljósi góðrar rekstrarafkomu auk þess sem varfærni hefur verið gætt við ákvörðun arðs. Í júlí var tilkynnt um að óskað hefði verið eftir heimild Fjármálaeftirlits SÍ til lækkunar hlutafjár fyrir 2.500 m.kr. Tilgangur hlutafjárlækkunarinnar er að færa fjármagnsskipan að áhættuvilja stjórnar en gjaldþolshlutfallið var í lok tímabilsins 1,79 sem liggur fyrir ofan efri mörk áhættuviljans.

Horfum fyrir árið 2021 hefur verið breytt lítillega hvað varðar afkomu af vátryggingastarfsemi fyrir skatta úr 2.100 m.kr í um 2.200 m.kr. Einnig hefur horfum til næstu 12 mánaða verið breytt þannig að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verður um 2.500 m.kr í stað 2.200 m.kr. áður og samsett hlutfall um 91% í stað 92%.“