Lýstar kröfur í þrotabú rækjuverskmiðjunnar Bakkavíkur í Bolungarvík námu rúmum 675 milljónum. Skiptum lauk á búinu 1. október síðastliðinn og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2010.

Málefni Bakkavíkur hafa farið hátt á síðustu árum. Félagið skilaði ágætri afkomu allt til ársins 2009 en hafði nýlokið við endurbætur á rækjuvinnslunni þegar efnahagshrunið varð árið 2008.

Framkvæmdirnar voru að hluta fjármagnaðar með gengislánum sem hækkuðu í kjölfar hrunsins og dró á sama tíma úr sölu afurða félagsins, að sögn þeirra Agnars Ebeneserssonar og Guðmundar Eydals, fyrrum stjórnenda Bakkavíkur, í grein í Morgunblaðinu í maí 2010. Skiptum lauk með úthlutunargerð en samkvæmt henni greiddust veðkröfur fyrir tæpar 450 milljónir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.