Hagnaður Landsbréfa hf. nam 75 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 2014, samanborið við 53 milljóna króna hagnað á sama tíma á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum árshlutareikningi félagsins.

Hreinar rekstrartekjur námu 493 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en námu 434 milljónum króna á sama tímabili árið 2013.

Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam 1.719 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 59,46%, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki má þetta hlutfall ekki vera undir 8%.

Umsvif framtakssjóða Landsbréfa jukust á fyrri helmingi ársins, að því er fram kemur í tilkynningu með uppgjörinu. Horn II slhf, fjárfesti í þremur nýjum verkefnum fyrir 2,8 milljarða króna og Landsbréf-Icelandic Tourism Fund I slhf. fjárfesti í þremur verkefnum fyrir 284 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að nokkuð erfiðar aðstæður hafi einkennt bæði íslenskan skuldabréfa- og hlutabréfamarkað á fyrri helmingi ársins. Ávöxtun bæði skuldabréfa og hlutabréfa hafi almennt verið lakari en undanfarin ár.

Haft eftir Helga Þór Arasyni, framkvæmdastjóra Landsbréfa að reksturinn hafi gengið vel og sjóðir félagsins hafi almennt skilað góðum árangri miðað við erfiðar markaðsaðstæður á fyrri hluta árs.