*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 14. mars 2021 17:01

916 þúsund krónur í dagslaun

Stjórnarformaður Glitins fær 916 þúsund krónur í laun á dag.

Ritstjórn

Stjórnarlaun Glitnis HoldCo verði óbreytt milli ára. Formanni verða greiddar 30 þúsund evrur, 4.584 þúsund krónur á gengi dagsins, og þá mun hann fá 5 þúsund evrur aukalega fyrir dag hvern sem hann þarf að sinna félaginu umfram fimm daga á árinu. Laun fyrir hvern dag eru því 916 þúsund krónur. Aðrir stjórnarmenn fá 20 þúsund evrur fyrir fjögurra daga vinnuskyldu.

Samkvæmt ársreikningi félagsins greiddi félagið 75 þúsund evrur í laun í fyrra eða fyrir fjórtán daga. Drógust launagreiðslur saman um 38 þúsund evrur milli ára.

Lítið er eftir af eignum í félaginu en samkvæmt yfirliti yfir hluthafa er Deutsche Bank þeirra stærstur.

Í fyrra féll dómur í máli Mainsee Holding gegn Glitni þar sem síðarnefndi aðilinn var sýknaður af kröfu um greiðslu um 4 milljóna evra. Þá voru Útgerðarfélag Reykjavíkur og Orkuveitan dæmd til að greiða félaginu samtals á sjötta milljarð. Mainsee Holding og Orkuveitan hafa áfrýjað til Landsréttar.

Leiðrétting:
Upphaflega stóð í fréttinni að Brim hefði verið dæmt til greiðslu og að félagið hefði áfrýjað til Landsréttar. Hið rétta er að Útgerðarfélag Reykjavíkur var dæmt til greiðslu og hefur félagið ekki áfrýjað. Fréttinni hefur verið breytt í samræmi við þetta.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér


Stikkorð: Glitnir Holdco