Flutningskostnaður skiptir Íslendinga sem og aðra jarðarbúa verulega miklu máli. Vísindamenn hjá Goddard geimvísindastöðinni hjá NASA í Bandaríkjunum telja þó að flutningskostnaðurinn skipti enn meira máli þegar horft er til nýrra mannaðra ferða til tunglsins.

Þeir hafa reiknað út að til að flytja hvern einasta lítra af vatni þá 363.000 kílómetra sem eru til tunglsins, þurfi að punga út um 11,7 milljónum kóna í flutningskostnað (100.000 dollurum). Þetta gerir rúmar 32 krónur á hvern kílómetra, en ekki er þá tekið fram hvort virðisaukaskattur er innifalinn. Af þessum ástæðum telja vísindamennirnir afar nauðsynlegt að leita til þrautar hvort ekki megi finna vatn í frosnu formi á tunglinu. Ekki sé útilokað að ís finnist í ofurkuldanum í dýpstu gígunum á pólum tunglsins þar sem sólin nær aldrei að skína.

Fróðlegt er að skoða þetta í samhengi við íslenskan veruleika þó Íslendingum finnist landflutningar hér innanlands yfirleitt allt of dýrir. Það kostar t.d. samkvæmt reiknivél á vefsíðu Landflutninga  971 krónur að flytja staka mjólkurfernu sem er 0.0096 rúmmetrar og rúmar einn lítra um 389 kílómetra leið frá Reykjavík til Akureyrar. Það gerir um 2,50 krónur á hvern kílómetra og þá er virðisaukaskattur innifalinn. Væntanlega fæst þar líka góður magnafsláttur svo raunverð á mjólkurflutningum norður er trúlega verulega mikið lægra. Ólíklegt er að NASA bjóði samt mikinn magnafslátt til tunglsins, enda samkeppin engin. Farmgjöldin hjá NASA eru samkvæmt þessu nærri 13 sinnum hærri á hvern kílómetra! Með verðlagningu NASA myndi því kosta 12.429 krónur að flytja eins lítra mjólkurfernu til Akureyrar, jafnvel þó innihaldið sé bara blávatn.

Kannski væri bara ráð hjá NASA að leita til bílstjóranna hjá Landflutningum og stilla betur mótorana í þessum tunglrakettum sínum til að lækka hjá sér flutningskostnaðinn.