Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,7% frá því opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:00 í 3.984 stigum.

Úrvalsvísitalan er nú í fyrsta skipti undir 4.000 stigum frá því í maí 2005 eins og greint var frá í morgun.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga en eins og sjá má hefur Eimskipafélagið hækkað eftir að tilkynnt var að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson myndu gangast í ábyrgð fyrir mögulegum skuldum félagsins.

Eimskipafélagið hefur engu að síður lækkað um 26,8% síðastliðna viku.

Velta með hlutabréf er nú 1,5 milljarður króna. Þar af eru tæpar 550 milljónir með bréf í Landsbankanum, tæpar 450 milljónir með bréf í Kaupþing, um 300 milljónir með bréf í Glitni og um 200 milljónir með bréf í Straum en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum og engin velta í öðrum.

Krónan hefur veikst um 0,7% í morgun og er gengisvísitalan nú 170,3 stig og hefur aldrei verið hærri.