Verslunarmenn segja útsöluvertíðina í janúar þá bestu frá hruni og hafa gengið vonum framar. Meiri aukning er í sölu á dýrari vörum og virðist sem uppsöfnuð þörf fyrir endurnýjun á heimilistækjum, sófum og innréttingum sé farin að skila sér inn í verslunina.

Stigvaxandi í fimm ár

„Þetta er búið að vera stigvaxandi núna í fimm ár,“ segir Hlíðar Hreinsson, framkvæmdastjóri Heimilistækja, um útsölur hjá þeim undanfarin ár. Hann segir útsöluna sem nú er nýafstaðin einnig hafa verið umtalsvert betri í veltu heldur en útsalan í fyrra. Spurður út í þessa þróun þá segir Hlíðar að mikið hafi breyst á undanförnum árum. „Það eru fleiri sem bíða. Menn sjá að það er meiri vöxtur á útsölutímabilunum heldur en á öðrum mánuðum,“ segir Hlíðar sem bendir á að hliðstæð þróun eigi sér einnig stað á meginlandi Evrópu. Aðspurður segir hann einna mestu aukninguna vera í sölu á heimilistækjum. Þar virðist sem margir hafi verið að bíða með endurnýjun en að sú bið hafi ekki getað staðið mikið lengur.

Svava Johansen, forstjóri NTC, segir að útsölurnar í verslunum NTC hafi verið sterkari í ár en árin á undan. Hún segir reyndar að jólavertíðin spili stórt hlutverk í því hvernig útsölurnar fari af stað. „Ef salan í desember er ekki eins og við áttum von á þá geymir fólk oft að kaupa vöruna þangað til á útsölu. Útsölurnar fóru þess vegna svona svakalega vel af stað,“ segir Svava sem nefnir að fyrsti dagur útsölu hafi borið upp á fimmtudegi en þá eru verslunarmiðstöðvar opnar lengur en venjulega eða til níu. Hún segir að á næsta ári beri fyrsta útsöludag upp á föstudegi og þegar hafi verið rætt að í framtíðinni verði opið lengur á fyrsta degi útsölu sama hvað dag sé um að ræða. Fyrsti útsöludagurinn sé einfaldlega alltaf stærstur. Innt eftir því hvar mesta söluaukningin sé segir Svava að meiri aukning sé í sölu í eldri og dýrari búðum en þeim yngri. Þá sé einnig merkjanleg aukning í sölu á skóm.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .