Actavis hefur eignast allt hlutafé í hollenska fyrirtækið PharmaPack International B.V samkvæmt fréttatilkynningu. Kaupverðið er sagt trúnaðarmál. PharmaPack sérhæfir sig í pökkun á hefðbundnum lyfjum og líftæknilyfjum. Fyrirtækið er sagt hafa umtalsverða reynslu í að uppfylla mismunandi kröfur fyrirtækja og landa um pökkun og hefur sinnt pökkun fyrir lyfjaiðnaðinn undanfarin 30 ár.

„Ég hef þekkt til þessa góða félags í langan tíma og er verulega stoltur af því að forsvarsmenn þess ákváðu að velja Actavis sem nýja eigendur, því það var augljóst að þeim stóðu fleiri kostir til boða“, er haft eftir Claudio Albrecht forstjóri Actavis í fréttatilkynningu. „Þessi kaup munu auka til muna sveigjanleikann á útboðsmörkuðum og gera okkur kleift að sinna minni pöntunum á lágmarksmagni fyrir smærri markaði.“

Pakkar lyfjum á Indlandi

Actavis kaupir umtalsvert af lyfjum af öðrum framleiðendum. „Afhendingartíminn er oft frá sex mánuðum og upp í níu, sem er allt of langt. Með kaupunum á PharmaPack International tekst okkur að stytta tímann um meira en helming,“ ef haft eftir Claudio Albrecht. „Eitt af framtíðarhlutverkum hollenska félagsins verður pökkun á lyfjum frá verksmiðju okkar í Alathur á Indlandi. Annar kostur er, að með kaupunum lækkar flutningskostnaður umtalsvert. Í stuttu máli; kaupin munu auka samkeppnishæfni Actavis og hafa jákvæð áhrif á hreint veltufé.“