Hu Jintao, forseti Kína, sagði í setningarræðu sinni á landsfundi Kommúnistaflokksins að unnið væri að efnahagsaðgerðum sem myndu hefja nýtt tímabil vaxtar fyrir kínverska hagkerfið samkvæmt frétt BBC. Hagvöxtur í Kína hefur ekki verið lægri í 3 ár.

Forsetinn ávarpaði rúmlega 2000 manns á landsfundinum og sagði hann meðal annars að ríkisstórn Kína muni leggja mikla áherslu á að auka einkaneyslu innanlands vegna minnkandi útflutnings.

Vesturlöndin hafa þrýst á Kína síðustu 4 ár að minnka vægi útflutnings í hagkerfinu svo landið sé ekki eins mikið háð útflutningi. Meðal annars með því að ýta undir aukna einkaneyslu í Kína. Fyrirtæki hafa í auknu mæli fært framleiðslu sína til Kína vegna lágs framleiðslukostnaðar sem hefur leitt til jákvæðs viðskiptajafnaðar í Kína.

Á landsfundi Kommúnistaflokksins mun nýr leiðtogi taka við keflinu en talið er að varaforseti Kína, Xi Jinping, muni taka við sem forseti. Meðal stærstu verkefna nýs forseta verður að framfylgja þessum nýju efnahagsáherslum.