*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 12. mars 2015 15:29

Aðstandendur ræddu Al Thani-dóminn í gær

Eiginkona Ólafs Ólafssonar skipulagði fund á Hilton fyrir aðstandendur sakborninga í Al Thani-málinu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar sem dæmdur var í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu, skipulagði fund fyrir aðstandendur sakborninganna þar sem verjendur fóru yfir dóm Hæstaréttar í málinu. Fundurinn fór fram á Hilton í gær þar sem um 250 manns voru mættir. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Á fundinum tóku til máls Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, og Ólafur Eiríksson, verjandi Sigurðar Einarssonar. Auk þess mætti Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, á fundinn til þess að tjá skoðun sína á dómnum.

Málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa Mohammad Bin Khalifa Al-Thani í Kaupþingi þann 22. september árið 2008. Þá keypti félag hans 5,01% í bankanum og borgaði 25,7 milljarða króna fyrir hann með láni frá bankanum. Dómur féll í málinu þann 12. febrúar síðastliðinn þar sem allir sakborninganna, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, voru sakfelldir.