Eiríkur Björn Björgvinsson ráðinn nýr bæjarstjóri Akureyrar
Eiríkur Björn Björgvinsson ráðinn nýr bæjarstjóri Akureyrar
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Bæjarstjórn Akureyrar mun á næstu dögum setja saman nefnd sem mun aðstoða starfsfólk Fiskistofu vegna áætlaðra flutninga til Akureyrar. Á norðlenska fjölmiðlinum Vikudegi er sagt frá því að Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, muni leiða nefndina, sem hafi það að markmiði að gera kynningarefni um bæinn fyrir starfsfólk sem hyggst flytja með Fiskistofu til Akureyrar.

Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið. „Við ætlum að setja saman starfshóp sem veitir upplýsingar um bæinn til þeirra sem hafa áhuga á að flytja hingað,“ segir Matthías. „Þetta er fjöldi starfsmanna, 35-40 manns, og því verða að vera góðar upplýsingar til staðar.“

Hann segir að nefndin verði ekki skipuð kjörnum fulltrúum, heldur verði uppistaðan starfsfólk úr stjórnsýslunni á Akureyri undir forystu bæjarstjórans. Ekki er vitað hversu margir verða í nefndinni, né hvenær hún tekur til starfa