Paul Tucker, aðstoðarseðlabankastjóri Bretlands, er sagður á milli steins og sleggju eftir að tölvupóstar voru birtir sem benda til vinskapar á milli hans og Bob Diamond, fyrrverandi bankastjóra Barclays-banka. Fjármálanefnd breska þingsins hefur síðustu daga kallað til sín forystumenn í bresku viðskiptalífi vegna misnotkunar starfsmanna Barclays með millibankavexti. Bob Diamond og stjórnarformaður Barclays sögðu báðir af sér eftir að málið komst upp. Sömu sögu er að segja af öðrum háttsettum starfsmönnum bankans, bæði þeim sem málið snerti beint og aðrir sem ýmist vissu eða áttu að vita af vaxtabraskinu. Á meðal þeirra sem komið hafa fyrir nefndina í vikunni er sir Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands.

Grunur leikur á að braskið hafi átt sér stað í fleiri bönkum og hugsanlega að fólk innan viðskiptalífsins hafi vitað af því.

King sagði fyrir þingnefndinni í dag ekkert hafa vitað af málinu fyrr en fyrir nokkrum vikum þegar það kom upp á yfirborðið.

Nafn Tuckers kom upp í tengslum við málið þegar hulunni var svipt af tölvupóstum á milil stjórnenda bankans. Svo virðist sem Tucker hafi verið í samskiptum við Diamond haustið 2008 þegar fjármálakreppan var að skella á. Barclays glímdi eins og aðrir bankar við lausafjárþurrð og leitaði fjárfesta í Mið-Austurlöndum.