Advania hefur keypt norska fyrirtækið Painkiller sem sérhæfir sig í ráðgjöf og hugbúnaðarlausnum á sviði öryggis í upplýsingatækni. Painkiller var stofnað í Noregi árið 2019 og þar starfa 19 öryggissérfræðingar.

Kaupin eru sögð til þess fallin að hjálpa Advania að ná markmiði sínu að verða eftirsóknarverðasti samstarfsaðili fyrirtækja um allt sem viðkemur upplýsingatækni.

„Helsta forgangsmál Advania er að gæta öryggis viðskiptavina sinna. Þörf fyrir þekkingu á upplýsingaöryggi og vörnum gegn stafrænum ógnum, eykst stöðugt. Með kaupunum og sameiningu við Painkiller er Advania enn betur í stakk búið til að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna. Öflugt starfsfólk Painkiller bætist nú í ört vaxandi teymi sérhæfðra öryggissérfræðinga Advania,“ segir í fréttatilkynningu.