Það var ekki upphaflegt markmið Arion banka að selja 39% hlut sinn í N1 svo skjótt. Bankinn hefði þó ekki selt, nema hann væri sáttur með verðið sem fékkst, segir Iða Brá Benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs bankans, í samtali við Viðskiptablaðið. Tilkynnt var um kaup Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á öllum hlut Arion í N1 í dag. Verð á hlutnum er ekki gefið upp.

Fyrir rúmlega tveimur vikum síðan var tilkynnt um kaup FSÍ á tæplega 16% hlut Íslandsbanka og Glitnis í N1. Samhliða gerði FSÍ samkomulag við Íslandsbanka og nokkra aðra aðila, þar á meðal lífeyrissjóði, um að leggja hlutafé sín inn í sameiginlegt félag. „Það félag mun fara með meirihluta hlutafjár í N1 og leiða áfram þróun og uppbyggingu félagsins,“ segir í tilkynningu FSÍ frá 12. september.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu 15. september sl. að stjórnendur Arion banka hafi verið ósáttur með samkomulag Íslandsbanka og FSÍ, og að stofnun félagsins sem fer með meirihluta hafi komið stjórnendum Arion í opna skjöldu. Eftir kaupin varð Arion banki einangraður minnihlutaeigandi með 39% hlut. Eins og fyrr segir hafa þeir nú selt hlutinn, fyrr en ætlað var.

Úr frétt Viðskiptablaðsins frá 15. september:

Áttu ekki veð en fengu hlut

Eftir að fjárhagslega endurskipulagningu N1 lauk í sumar var Arion banki stærsti einstaki eigandi N1 með 38,9% hlut. Þann eignarhlut fékk bankinn vegna þess að hann var stærsti kröfuhafi fasteignafélagsins Umtaks, eiganda allra fasteigna sem hýsa starfsemi N1, og átti veð í öllum eignum þess félags. Íslandsbanki átti síðan veð í birgðum og viðskiptakröfum N1 og var næststærsti kröfuhafi samstæðunnar. Hann fékk 31,9% eignarhlut fyrir þær kröfur.

Í endurskipulagningunni var þess krafist af fyrrum eigendum N1 að skuldabréfaeigendur, að mestu íslenskir lífeyrissjóðir, myndu standa jafnfætis ofangreindum kröfuhöfum þrátt fyrir að þeir ættu ekki veðkröfur. Á endanum náðist samkomulag um að þeir fengju 21,3% eignarhlut í endurskipulögðu N1.

Ekki í anda samkomulags

Stjórnendur Arion banka telja sig hafa gert ákaflega vel við skuldabréfaeigendur með því að hafa samþykkt að leyfa þeim að standa jafnfætis veðtryggðum kröfuhöfum í endurskipulagningunni. Viðmælendur Viðskiptablaðsins vilja meina að Íslandsbanki hefði á sama tíma dregið lappirnar í gerð þessa samkomulags.

Þá var einnig talið að í samkomulaginu hefði falist að setja eignarhlutina í N1 í opið söluferli vorið 2012. Arion hefur neitað tilboðum frá nokkrum áhugasömum bjóðendum vegna þessa, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Því kom það stjórnendum bankans mjög á óvart að FSÍ, sem er í eigu lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS, hefði í raun keypt hlut í N1 án þess að opið söluferli ætti sér stað. Það hafi ekki verið í anda þess samkomulags sem var gert við fjárhagslega endurskipulagningu N1.