„Undirbúningurinn hefst viku fyrr þegar allir fá afhent skjöl með sínu hlutverki,“ segir Stefanía Dröfn Egilsdóttir sem sér um morðgátuleiki hjá viðburðastjórnunarfyrirtækinu Eskimos. „Gestir þurfa að lesa sér til og undirbúa sín hlutverk áður en mætt er til leiks.“ Í hlutverkalýsingu hvers og eins kemur fram til hvers er ætlast af viðkomandi í leiknum, hver persónan er og hvernig hún tengist fórnarlambinu og öðrum persónum í leiknum. Stefanía segir að morðgátuleikir hafi notið mikilla vinsælda síðan fyrirtækið bauð fyrst upp á slíka fyrir um sjö árum.

Kvöldið hefst á fordrykk þar sem gestir ræða hver við annan til að reyna að afla upplýsinga. „Dularfullar persónur eins og rannsóknarblaðamaðurinn og eiturlyfjabaróninn gera leikinn ógleymanlegan,“ segir Stefanía.

Hún segir þetta í raun eins og erfidrykkju þar sem gestir eru saman komnir vegna dularfulls mannsláts. „Síðan reynir fólk að komast að því hver morðinginn er og í lok kvölds er því ljóstrað upp.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Ráðstefnur og fundir sem fylgdi Viðskiptablaðinu 31. janúar sl. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.