EBITDA-hagnaður bresku verslanakeðjunnar Marks & Spencer jókst um 4,3% á rekstrarárinu sem lauk þann 29. mars síðastliðinn. Samtals nam hagnaður M&S um einum milljarði punda, sem var lítillega yfir væntingum greinenda. Fyrirtækið greindi einnig frá því að kaupaukar yrðu ekki greiddir til starfsmanna þar sem markmiðum fyrirtækisins hefði ekki verið náð.

Heildartekjur M&S hækkuðu um 5,1% á árinu, í 9,02 milljarða punda. Forstjórinn Stuart Rose segist gera ráð fyrir að markaðsaðstæður muni "verða erfiðar í fyrirsjáanlegri framtíð".