Þrátt fyrir neikvæða afkomu af samningi Landsbankans við LBI (gamla Landsbankann) ofangreindum liðum hefur afkoma Ríkissjóðs af fjárfestingu í Landsbankanum verið með ágætum, að því er segir í tilkynningu frá bankanum. Þegar tekið er tillit til fjármagnskostnaðar er afkoma ríkisins af hlutdeildinni í bankanum jákvæð um 55 milljarða króna. Til að útskýra hvernig sú fjárhæð er fengin er nauðsynlegt að fara yfir fjármögnun Landsbankans og samninginn við gamla bankann.

Lántaka Landsbankans í núverandi formi er eingöngu skuldabréfaútgáfa til LBI, en um hana var samið við tilfærslu eigna og skulda frá Landsbanka Íslands hf. til Landsbankans. Um er að ræða tvíþætta lántöku; skuldabréf „A“ og skilyrt skuldabréf.

A-skuldabréfið er í evrum, dollurum og pundum og er með ársfjórðungslegum afborgunum. Landsbankinn mun greiða næst af bréfinu 2015 þar sem hann greiddi upp á öðrum ársfjórðungi 2012 fyrstu fimm gjalddaga bréfsins með fyrirframgreiðslu til LBI.

Skilyrta skuldabréfið er tengt mögulegri virðisaukningu á hluta af lánasafni Landsbankans. Skilyrta skuldabréfið verður gefið út í lok mars 2013 og mun bera vexti frá ársbyrjun sama árs.

Starfsmenn gætu fengið 2% hlut í bankanum

Bókfærð staða skilyrta skuldabréfsins miðað við árslok 2012 var rúmir 87 milljarðar króna. Endanleg fjárhæð á bréfinu byggist á mati erlendra sérfræðinga á skilgreindum eignum og getur hæst orðið 92 milljarðar króna. Verði niðurstaða þeirra önnur en í uppgjöri bankans breytist fjárhæð skuldabréfsins og hugsanlega getur komið til breytinga á eignum til samræmis og færast þá slíkar breytingar í bækur bankans á árinu 2013. Ef útgáfa skilyrta skuldabréfsins nær hámarki mun LBI láta alla eignarhluti sína í Landsbankanum af hendi en annars hlutfallslega miðað við útgáfufjárhæð. Stærsti hluti hlutabréfanna mun renna til ríkisins en allt að 2% af heildarhlutafé í Landsbankanum gæti runnið til starfsmanna Landsbankans.

Ríkissjóður greiddi fyrir sinn hlut í Landsbankanum í formi skuldabréfs að nafnvirði 122 milljarðar króna. Frá því að samningar tókust hefur Ríkissjóður greitt samtals um 36,5 milljarða í vexti af skuldabréfinu en núvirði vaxtakostnaðarins er um 41,5 milljarðar króna ef miðað er við vaxtastig skuldabréfsins til núvirðingar.

Hlutdeild Ríkisins í bókfærðu eigin fé hefur aukist um 97 milljarða króna frá stofnun bankans að teknu tilliti til hlutabréfa sem munu renna frá LBI til ríkisins þegar Landsbankinn gefur út skilyrta skuldabréfið. Afkoma ríkisins er því jákvæð um 55 milljarða króna þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnskostnaðar.