Aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum nam 3,5 milljörðum króna í janúar í ár samanborið við tæpa 5,3 milljarða í janúar árið áður. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um 33% eða sem nemur 1,8 milljörðum króna, segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Verðmæti botnfiskafla var tæpir 3 milljarðar og dróst saman um 8,5% frá janúarmánuði 2005. Þorskaflinn dróst saman í verðmæti um 8,7% var 1,8 milljarðar, verðmæti ýsuafla nam 615 milljónum og dróst saman um 7,7% og aflaverðmæti ufsa var 132 milljónir sem er 24% minna en í janúar í fyrra. Hins vegar jókst aflaverðmæti flatfisks milli ára, nam 329 milljónum samanborið við 186 milljónir króna í fyrra.

Aflaverðmæti loðnu í janúar 2006 er ekki upp á marga fiska samanborið við fyrra ár enda fór loðnuvertíð seint af stað. Verðmæti loðnuaflans í janúar í ár var 182 milljónir en var í fyrra komið upp í 1,8 milljarða í janúarlok.

Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var tæpir 1,5 milljarðar samanborið við 2,8 milljarða árið áður sem er 48% lækkun. Verðmæti afla sem fluttur var beint út óunninn nam 316 milljónum og dróst saman um 235 milljónir eða 43%. Aflaverðmæti sjófrystingar dróst saman um 14% milli ára, nam 748 milljónum í ár.