Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software, dótturfyrirtæki Nýherja, áætlar að ráða 30 starfsmenn á árinu. Ástæðan er sú að eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins hefur vaxið mikið og þarf að fjölga í starfsmannahópnum. Starfsmenn TM Software eru um 100 um þessar mundir.

Fram kemur í tilkynningu frá TM Software að tekjur jukust um 32% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er betri afkoma en reiknað var með. Þar af jukust erlendar tekjur félagsins um 90% á milli ára og eru þær nú 42% heildartekna TM Software. Áætlun TM Software gerir ráð fyrir að erlendar tekjur fyrirtækisins haldi áfram að aukast og verði sífellt stærri hluti heildartekna. Félagið áætlar að heildartekjur á árinu 2014 verði um 1,7 milljarðar króna.

Söluaukning hefur orðið á öllum markaðssvæðum Tempo hugbúnaðar en stærstu markaðssvæði Tempo eru Norður Ameríka, Þýskaland, Bretland og Ástralía, að því er segir í tilkynningu.