Efasemdir um hvort breyta þurfi stjórnarskránni til að gera inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið mögulega voru viðraðar í rökræðum sem Hagfræðideild Háskóla Íslands stóð fyrir í gær

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir breytingu á stjórnarskrá Íslands ekki skilyrði fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Vísar hann til 21. greinar stjórnarskrárinnar máli sínu til stuðnings þar sem segir: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Með öðrum orðum segir Þorvaldur greinina þýða að ef samþykki Alþingi liggi fyrir þá sé heimilt skv. stjórnaskránni að gera þær breytingar sem innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér. Þorvaldur segir greinina vera samhljóma 19. grein stjórnarskrár Danmerkur.

„Og það var á grundvelli þessarar greinar sem Danir gengu inn í Evrópusambandið. Síðan gerist það að Danir hafa viðbótar ákvæði við greinina, sem þrengir þessa afsalsheimild og bindir hana m.a. við aukinn meirihluta. Þrengjandi viðbótargreinin í dönsku stjórnarskránni er samt ekki meira þrengjandi en svo að Danir gengu inní Evrópusambandið. Þessa þrengjandi grein gleymdist hins vegar að setja í íslensku st jórnarskránna, hana vantar. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að grein, sem sumum finnst vanta í stjórnarskrána, eigi að geta staðið í vegi fyrir því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá.“

Þorvaldur segir þessa staðreynd benda til þess að stjórnarflokkarnir allir og ýmsir heldri borgar landsins hafi gert sig sekan um villu. „Um þetta þarf að ræða,“ sagði Þorvaldur enn fremur.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt Viðskiptablaðsins í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .