Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Aldin, sem skapar tækni og upplifanir fyrir sýndarveruleika, hefur lokið 100 milljóna króna fjármögnun og tilkynnir framleiðslu nýrrar sýndarveruleikaupplifunar fyrir almenningsmarkað.

Fjármögnunarlotan var leidd af Crowberry Capital með þátttöku Investa og Tækniþróunarsjóðs Íslands. Fjármögnunin styður við framleiðslu og markaðssetningu nýrra upplifana fyrir almennan sýndarveruleikabúnað auk áframhaldandi þróunar á hugbúnaðartækni fyrirtækisins. Helga Valfells frá Crowberry mun taka sæti í stjórn Aldin og bæta áratuga viðskiptareynslu við þekkingargrunn fyrirtækisins. Þá hyggst Aldin einnig bæta við sig starfsmönnum á árinu, bæði á sviðum viðskipta og hugbúnaðarþróunar.

Sýndarveruleiki táknar nýja tíma í tölvuiðnaði, en það er miðill sem leyfir fólki að stíga inn í sýndarheim líkt og um annan raunveruleika sé að ræða. Miðillinn býður skemmtiefni á einstaklega aðgengilegu formi og þessum nýja markaði er spáð gífurlegum vexti á næstu árum í takt við betrumbætur á vélbúnaði og efnisframboði. Geta sýndarveruleika til að líkja á sannfærandi hátt eftir raunveruleika er í stöðugri framþróun og krefst nýrra tegunda hugbúnaðartækni til að glæða lífi í umhverfi og sögupersónur. Þessi þróun er rétt að byrja og nú eru stór tækifæri fyrir ung fyrirtæki að ná samkeppnislegu forskoti og tryggja samkeppnishæfar vörur á alþjóðavettvangi. Að mati Aldin hafa „sannfærandi upplifanir” alla burði til að skapa sér sess sem nýtt efnisform með gífurlega markaðsmöguleika samhliða bókum, kvikmyndum og tölvuleikjum.

„Sýndarveruleiki opnar allskonar gáttir fyrir tölvuleiki, hönnun, þjálfun og fleira. Stærsta tækifærið finnst okkur möguleikinn að skapa sannfærandi upplifanir sem annars væri aðeins hægt að eiga í raunveruleikanum. Það er markmiðið okkar.” segir Hrafn Þorri Þórisson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Aldin, „Fram að þessu hafa svo sannfærandi upplifanir ekki verið mögulegar, gagnvirkari en hefðbundnir tölvuleikir og jafn aðgengilegar og kvikmyndir.”

Næsta vara Aldin gerir notendum kleift að stíga inn í ævintýralegan heim og kynnast dularfullri sögupersónu á hátt sem einungis er mögulegt með sýndarveruleika. Upplifunin verður drifin af gervigreindartækni og þróuð með nýja hugbúnaðartólinu Ghostline® sem Aldin hefur þróað í samstarfi við Tækniþróunarsjóð undanfarin ár. Kjarninn í þeirri tækni er hegðunargreining sem m.a. gerir Aldin kleift að skilja betur hegðun notenda og framleiða sýndarheima á skilvirkari máta, auk þess að gera mögulegt að láta sýndarumhverfi og sögupersónur bregðast sannfærandi við notendum. Fyrri vörur Aldin eru t.d. Waltz of the Wizard® sem kom út árið 2016. Vel yfir 250,000 notendur hafa spilað Waltz sem er ein vinsælasta sýndarveruleikavaran á markaðnum og sat lengi í fyrsta sæti yfir hæst metnu sýndarveruleikaupplifanir á Steam, stærstu PC hugbúnaðarverslun í heimi.

„Við hjá Crowberry hlökkum til að vinna með stofnendum og starfsmönnum Aldin. Við trúum því að félagið eigi eftir að vaxa mikið á komandi árum samfara því að notkun á sýndarveruleika og viðbættumveruleika (e. augmented reality) mun aukast. Hjá Aldin starfar frábært teymi sem hefur djúpa tækniþekkingu, sköpunargáfu og einstaka innsýn inn í þennan nýja miðil" Segir Helga Valfells frá Crowberry Capital.