Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir allsherjarfarbönn ein og sér veita litla sem enga vernd fyrir kórónuveirunni, og sérfræðingar segja þau jafnvel geta gert illt verra með því að veita falska öryggiskennd og sóa dýrmætum tíma og mannskap, auk þess að valda almennu uppþoti og ringulreið. Þetta kemur fram í umfjöllun vefmiðilsins DTE .

Ummælin lét yfirmaður neyðaraðgerða hjá stofnuninni, Mike Ryan, falla á fjarblaðamannafundi vegna stöðu kórónufaraldursins, hvar hann gagnrýndi allsherjarfarbann Indlands á inngöngu erlendra ríkisborgara í landið harðlega, en bannið var lagt á síðastliðinn fimmtudag.

Ryan sagðist ekki vita til þess að áhættugreining á stöðunni og áhrifum bannsins hefði farið fram áður en það var lagt á. Slík bönn væru óverjandi nema skýr rökstuðningur studdur rannsóknum lægju að baki.

Inversk yfirvöld segjast hafa talið bannið nauðsyn, og fullyrða að áhættugreining hafi farið fram, án þess að útlista nánar í hverju hún fólst eða hver niðurstaðan var.