Eins og fram kom í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins á dögunum þá hefur stöðugildum hjá ríkinu fjölgað um 2700 frá árinu 2012. Er það um 19% fjölgun en á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um 16,9%. Þá hefur störfum í opinberri stjórnsýslu fjölgað um fimmtung frá árinu 2012.

Engar augljósar skýringar er að sjá af svörum ráðherra af hverju stjórnsýslan stækkar svona. Sérstaklega í ljósi þess að verkefni hennar eru skýr og lögbundin og breytast lítið frá ári til árs.

Alþingi er dæmi um stofnun sem ætla mætti að hefði verkefni sem eru í föstum skorðum og breytast lítið. Eigi að síður hafa fjárheimildir Alþingis aukist gríðarlega gegnum árin. Þannig námu fjárheimildir þingsins ríflega þremur milljörðum króna um aldamótin á verðlagi ársins 2022. Fjárheimildir ársins 2021 voru tæplega fimm milljarðar og er þetta því hækkun um 51%.

Einnig hefur starfsmönnum þingsins fjölgað mikið eða um 60% frá árinu 1999. Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi starfa 149 í þinginu en þeir voru 93 árið 1999. Launakostnaður hefur jafnframt aukist gríðarlega eða um 99% á föstu verðlagi. Launakostnaður sem hlutfall af fjárheimildum nam 74,9% árið 2018.

Nánar er fjallað um kostnað Alþingis í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.