Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Ungra athafnakvenna (UAK) í gær, fimmtudag. Í fyrsta skipti í sögu félagsins fór kjör formanns félagsins fram á aðalfundi en nýr formaður stjórnar er Andrea Gunnarsdóttir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

,,Á starfsárinu sem er að líða höfum við unnið að því að vera hluti af breytingunni og lagt okkar af mörkum í átt að bættu samfélagi þar sem öll kyn standa jafnfætis. Það er mér sannur heiður að fá að leiða félagið áfram í þeirri vegferð og lít ég björtum augum til framtíðar ungra kvenna í atvinnulífinu", segir Andrea, nýkjörin formaður UAK, í tilkynningunni.

Kosið er til tveggja ára en þær sem hlutu kjör eru Guðrún Valdís Jónsdóttir, Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann og Kristín Sverrisdóttir. Ásamt nýkjörnum stjórnarkonum skipar stjórn UAK 2021-2022 þær Andreu Gunnarsdóttur, Bjarklindi Björk Gunnarsdóttur, Ingu Maríu Hjartardóttur og Kristjönu Björk Barðdal. Þær tvær konur sem fengu næst flest atkvæði í kosningum til stjórnar verða varamenn til eins árs en það eru þær Árný Lára Sigurðardóttir og Berglind Grímsdóttir.

Markmið UAK er að stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. ,,Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn þá héldum við uppteknum hætti og héldum 17 viðburði. Félagskonur eru á fjórða hundrað sem undirstrikar þörfina fyrir félagi sem þessu," segir Andrea.

Ný stjórn hlakkar til áframhaldandi uppbyggingar félagsins og komandi starfsárs og bendir á að hægt sé að fylgjast með starfinu á heimasíðu félagsins, uak.is.