Andri Már Ingólfsson, forstjóri og eigandi ferðaskrifstofunnar Aventura og stofnandi og fyrrverandi  eigandi Heimsferða, gagnrýnir Samkeppniseftirlitið (SKE) harðlega í aðsendri grein á Vísi . Tilefnið er samruni Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða sem SKE hefur haft til umfjöllunar í á annað ár, en samkvæmt heimasíðu SKE á ákvörðunin að liggja fyrir 25. apríl nk.

Í greininni bendir Andri Már á að ef SKE gefi grænt ljós á samrunan muni sameinað félag búa yfir 65% markaðshlutdeild og þar með tryggja sér yfirburðarstöðu á markaði. „Hinn aðilinn er Vita, sem er auðvitað með ótakmarkaða rekstrartryggingu frá Icelandair þar sem óljóst er hver greiðir fyrir sætin á hvern áfangstað,“ segir m.a. í grein Andra Más.

Segir hann jafnframt að frá upphafi hafi legið fyrir að samruninn sé á skjön við eðlilega samkeppni á markaði. „Slíkt hefur aldrei verið leyft á þeim mörkuðum sem við berum okkur saman við, þar má nefna öll löndin í Skandínavíu, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi o.s. frv.“

Til að bæta gráu ofan á svart hafi SKE „látið óátalin fjölda brota á samkeppnislögum á annað ár.“ Samkeppnislög séu skýr hvað óeðlilega viðskiptahætti og brot á lögum varðar og þar beri helst að nefna: samráð um framboð samkeppnisaðila, samræming verðlags samkeppnisaðila, sameiginleg innkaup samkeppnisaðila og takmörkun og stýring á framboði milli samkeppnisaðila.

„Í öllum ofangreinum tilfellum hafa fjöldi brota verið framin síðustu misseri í blóra við lög og þær reglur sem öðrum aðilum er gert að vinna eftir í greininni. Nú þegar er búið að samþætta rekstur fyrirtækjanna þrátt fyrir að úrskurður Samkeppnisstofnunar liggi ekki fyrir,“ skrifar Andri Már og bætir við:

„Samkeppnisstofun hefur verið bent á þessi brot ítrekað, en hún hefur látið þau óátalin, þrátt fyrir alvarlegan refsiramma laganna.“

Með sama hætti megi leggja drög að því að Byko og Húsasmiðjan mættu sameinast, Sjóvá og VÍS einnig, auk fjölda annarra dæma sem mætti tilgreina.

„Meðan í gildi eru lög um rekstur ferðaskrifstofa og á hvaða grunni þær skuli starfa, hlýtur að þurfa að fara að lögum, og ekki hægt að þrýsta í gegn óeðlilegri sameiningu, þrátt fyrir mikla pressu frá kerfinu og fjármálastofnunum á Samkeppnisstofnum,“ segir í grein Andra Más.

Hann hafi stofnað Heimsferðir fyrir 30 árum, og rekið við góðan orðstýr í 28 ár, „þar til Arion banka hugnaðist að taka yfir reksturinn. Aldrei á því tímabili hefði komið til greina, né staðið til boða að mynda fyrirtæki á Íslenskum markaði sem stjórnaði 65% af markaðinum,“ skrifar Andri Már og beinir næst spjótum sínum að Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra SKE:

„Undirritaður skorar á Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins að taka ákvörðun í anda laganna og tryggja sjálfstæði Samkeppnisstofnunar, og láta ekki þrýsting frá öðrum aðilum ráða niðurstöðu eins og því miður er þekkt í Íslensku þjóðfélagi.“